Hver stjórnar?
  

Þessi pistill fjallar um óvenjulega hættu sem stafaði af tillitsleysi gagnvart farþegunum. Gott er að vera sér meðvitaður um þennan möguleika, næst þegar maður býður frænku í flug ...


Þannig var hjá mér, eins og er hjá flestum, að fljótlega eftir að hafa fengið einkaflugmannsskýrteinið í hendurnar, er öllum vinum og kunningjum, frændum og frænkum, öfum og ömmum og öllum hinum boðið í smá flugtúr, svona hálfgerðan grobbtúr. Oft er verið að bjóða fólki sem hefur aldrei séð, hvað þá sjórnað loftfari af nokkurri gerð, nema þá helst flugdreka í útileigu í Vaglaskógi. Þetta fólk þekkir lítið sem ekkert til stjórntækja flugvélar, og á því til að bregðast öðruvísi við en við búumst við af því þegar við ætlum að vera voða skemmtileg að leyfa þeim að "grípa í".

Í umræddu tilviki var verið ferðast um með tvo mjög svo óreynda félaga í Cessnu 172. Hvorugur þeirra hafði nokkurn tímann verið farþegi í svo lítilli vél, og því síður stýrt flugvél. Ég veit ekki hvort allir séu því sammála, en slíkir menn, eru tilvaldir í saklausa hrekki, þar sem þetta eru góðir vinir manns, sem eiga það hreinlega skilið að þeim sé strítt.

Lagt var frá Akureyri í stutta ferð inn fjörðinn, svona ca. 50 mín. Farþeginn sem var fram í fékk að taka hana í loftið undir vökulu auga hins nýútskrifaða einkaflugmanns. Flugtak og brottflug gekk vel, og þegar við vorum komnir aðeins inn í fjörð þótti nýútskrifaða einkaflugmanninum sniðugt að leyfa vinunum að finna fyrir þyngdarleysi — án þess að láta þá vita neitt af því áður.

Það er skemmst frá því að segja, að farþeganum sem var í hægra sætinu brá svo mikið, að hann fann hjá sér yfirþyrmandi þörf til að grípa í eitthvað, já eitthvað og hvað sem er. Fyrir valinu varð stýrið fyrir framan hann, sem hann dúndraði fram í borð. Það dylst líklega fáum að vélin fær á sig töluvert neikvætt G, auk þess sem Cessna 172 er háþekja og eldsneytið flæðir til mótors vélarinnar með hjálp þyngdaraflsins, sem í þessu tilviki var orðið neikvætt, og þar af leiðandi drapst á vélinni.

Ég ætla ekki að segja í hvaða hæð vélin var þegar æfingarnar áttu sér stað, en við skulum orða það þannig að sviftíminn hefði ekki orðið mikið meiri en ein mínúta.

Það var reyndar ekki hlutur sem við þurftum að hafa áhyggjur af lengi, þar sem vélin snérist fljótlega í gang eftir að þyngdaraflið kom aftur á hjá okkur, en hjartslátturinn fór á yfirsnúning hjá okkur öllum, þó sérstaklega nýútskrifaða einkaflugmanninum, þar sem hann var sá eini sem áttaði sig á hvað gerðist. Í framhaldinu var ákveðið að lenda stutt á Melgerðismelum til að anda og leyfa drengjunum að skipta um sæti. Sá sem var fyrir í hægra sætinu, langaði hvort eð er ekkert að vera þar mikið lengur.

Þar sem völlurinn á Melgerðismelum er grasbraut og töluvert minni um sig en á Akureyri, ákvað nýútskrifaði einkaflugmaðurinn að taka hana sjálfur í loftið, en leyfa félaganum að hafa hendurnar laust á stýrunum, svona rétt til að finna hvernig þetta er gert. Það sem ég tók ekki eftir var að hann var svona frekar úttaugaður eftir atburðinn þegar drapst á vélinni, og því kannski ekki í andlegu jafnvægi til að hafa í fyrsta skipti hendur á stýrum í flugtaki.

Þegar vélin nálgaðist 50 hnúta, tók ég, nýútskrifaði einkaflugmaðurinn, eftir því að hallastýri og hæðastýri voru föst!!! Alveg föst. 60 hnútar enn föst!! Alveg föst. 70 hnútar og vélin er að byrja fljúga sjálf, það er án þess að togað sé í stýrin, því þau eru ALVEG FÖST.

Það er að erfitt að lýsa þeim þúsund hugsunum sem þjóta í gegnum huga manns á svona stundu, en sú hugsun sem hafði sig mest frammi var sú að draga aflið af vélinni strax og skella henni í jörðina og taka afleiðingunum, í stað þess að fljúga eitthvað út í loftið án þess að hafa halla- og hæðarstýri. Það er eiginlega þegar ég er að fara að segja strákunum að setja sig í fósturstellinguna, og er að líta á hægri hendina til að vera viss um að hún sé á réttu handfangi til að "kötta" aflið og eldsneytið af vélinni sem ég tek eftir því að félaginn í hægra sætinu er gjörsamlega frosinn. Hvítur í framan, starandi augu beint fram, og algjörlega stífur á stýrunum.

Það varð því úr að lausn vandamálsins var eitt gott, fast og hnitmiðað kjaftshögg, og vélin komst heil heim með alla innanborðs heila á húfi, fyrir utan vægt taugaáfall og sprungna vör.

Þegar manni er litið til baka á umræddan atburð brosir maður með sjálfum sér að þessu, en hugsar þó með sér að það munaði kannski ekki allt og miklu á að illa færi. Það sem ég hef tamið mér eftir þetta flug, er að fylgjast betur með þeim farþegum sem ég flýg með. Fólk sem er í framandi aðstæðum bregst oft við á annan hátt en hollt getur talist, og því reyni ég að taka tillit til þess, bæði þeirra vegna, og ekki síður vegna mín sjálfs. Mig langar nefnilega ekki að komast á forsíður dagblaðanna, ekki af þessum sökum að minnsta kosti.

 

Höfundur er flugmaður, og sem slíkur alltaf að læra.
Hann óskar nafnleyndar af skiljanlegum ástæðum!




 © 2001, Hugmót ehf - Allur réttur áskilinn