12. tbl. - 17.12.2003 
 

 

Hundrað ár frá fyrsta vélfluginu

Efnisyfirlit:

Hundrað ár frá fyrsta vélfluginu

Orville Wright flýgur í fyrsta sinn, 17. des. 1903.

Í dag eru liðin nákvæmlega 100 ár frá því Wright-bræðrum tókst að hefja sig til flugs. Þar með rættist aldagamall draumur mannsins, um að geta flogið frjáls sem fuglarnir.

Þessi merkisatburður átti sér stað í Kitty Hawk í Norður Karólínu í Bandaríkjunum. Helsta ástæða þess að bræðurnir völdu þennan stað til flugsins, var sú að hann var einn vindasamasti staðurinn í öllum Bandaríkjunum, auk þess sem mjúkar sandöldur auðvelduðu bæði flugtök og lendingar.

Eftir um 3 ára þrotlausar tilraunir, mælingar, flugdrekaflug, svifflug og vindgangasmíði, voru þeir Wilbur og Orville Wright mættir á staðinn með Flyer vélina sína. Hún var knúin 12 hestafla, fjögurra strokka bensínvél, sem Charles Taylor vinur þeirra og samstarfsmaður hafði sérsmíðað fyrir þá. Fyrsta tilraun var gerð 14. desember með Wilbur við stjórnvölinn, en hún mistókst og vélin skemmdist lítið eitt.

Gert var við hana og þrem dögum síðar, þann 17. desember 1903, gerði Orville aðra tilraun. Um kl. 10:35 rann flugvél þeirra af stað eftir sérstökum teini, á móti rúmlega 18 hnúta strekkingsvindi (um 34 km/klst). Fyrsta flugið tók aðeins 12 sekúndur og spannaði 120 feta vegalengd; hraði við jörð var því aðeins um 10 fet á sekúndu eða um 6 hnútar (11 km/klst). Flughæðin var um 10 fet. Alls voru 7 manns vitni að þessum merkisatburði; bræðurnir sjálfir og 5 björgunarsveitarmenn á svæðinu sem voru þeim til aðstoðar.

Þetta fyrsta flug var stórt skref fyrir mannkynið og markaði tímamót; í fyrsta sinn hafði maður hafið sig til flugs á vélknúnu loftfari þyngra en loft, stjórnað því af öryggi og lent heill á húfi. Alls flugu þeir bræður til skiptis 4 flug þennan dag, það lengsta varði í 59 sekúndur og náði yfir 852 fet (260 m). Meðalflughraðinn í þessu síðasta flugi var því um 26 hnútar (48 km/klst). Að því loknu veltu bræðurnir því fyrir sér að fljúga næst til veðurathugunarstöðvarinnar í Kitty Hawk, rúmlega 6 km leið, til að senda símskeyti um afrek dagsins. En þá kom vindhviða sem feykti flugvélinni um koll. John T. Daniels, björgunarsveitarmaður í Kill Devil stöðinni, reyndi allt sem hann gat til að hemja flugvélina, en hún valt samt nokkra hringi. Fyrir vikið varð hann allur blár og marinn og er af sumum talinn fyrsta fórnarlambið í flugslysi, þó ekki hafi hann goldið fyrir með lífi sínu. Flugvélin flaug aldrei aftur og var síðar gerð upp og hangir nú til sýnis á Smithsoninan safninu í Washington D.C.

Wright-bræður gátu lítið nýtt sér af starfi fyrirrennara sinna, því í ljós kom að ýmsir stuðlar og útreikningar sem þeir studdust við, voru hreinlega rangir. Þeir þurftu því að byrja nánast frá grunni, finna út rétta stuðla, ákveða hentugt vænglag og vænghaf, finna leið til að stjórna halla á flugi (sem þeir leystu með því að vinda upp á vængina), ásamt því að búa til hreyfil og loftskrúfur. Þó svo ýmsir aðrir bæði lærðari og efnaðri en Wright-bræður hafi verið langt komnir á svipuðum tíma og mikill keppnisandi hafi ríkt um það hver yrði fyrstur manna til að fljúga, voru það lítt menntaðir reiðhjólasmiðir frá Dayton í Ohio sem komu fyrstir í mark. Þeir höfðu svo sannarlega til þess unnið!

(Myndina hér að ofan tók John T. Daniels eftir leiðsögn Orvilles)


Geirfuglar fá nýtt leiktæki á næstunni

Smelltu til að skoða betur

Flugklúbburinn Geirfugl hefur keypt stélhjólsvél af gerðinni American Champion Citabria Aurora 7ECA. Flugvélin er árgerð 1996, með 590 klst. heildarflugtíma á skrokk en einungis um 50 klst. á mótor. Vélin er ákaflega vel með farin og nánast sem ný að innan sem utan.

Kaupverð vélarinnar er rúmar 5 milljónir með flutningsgjöldum og kostnaði við sundurtekt og samsetningu. Um þessar mundir er flugvirki félagsins, Helgi Rafnsson, að ganga frá vélinni til flutnings frá Miami í Flórída. Gert er ráð fyrir að vélin komi til landsins fyrstu vikuna í janúar og má búast við að hún verði komin í notkun í febrúar 2004. Að líkindum mun hún bera einkennisstafina TF-FUN, sem er vel við hæfi.

Þessi vél er af svipaðri gerð og TF-TWA sem Flugklúbbur Mosfellsbæjar hefur notað undanfarin ár og haft góða reynslu af. Sjá nánari upplýsingar á vef Geirfugls og á upplýsingavefnum Airliners.net.


Tryggðu gögnin þín - þau eru verðmætari en þig grunar!


Yfirflug endar með ósköpum

Flugkennari og flugnemi á TF-FTT, sem er Cessna 152 kennsluflugvél, flugu full lágt yfir snævi þakinn flugvöllinn á Raufarhöfn þann 1. des. sl. Vélin snerti snjóinn og skipti þá engum togum að hún stakkst í brautina. Nefhjólið brotnaði undan flugvélinni og loftskrúfan eyðilagðist, en hvorugan manninn sakaði.

Sjá frétt á mbl.is.


Grænlandsflug hættir beinu flugi til Akureyrar

B-757 þota Grænlandsflugs

Vegna lélegrar sætanýtingar á flugleiðinni Kaupmannahöfn-Akureyri-Kaupmannahöfn, hefur Grænlandsflug ákveðið að hætta þessu flugi að sinni. Flugleiðin var opnuð í vor við góðar undirtektir framámanna í ferðaþjónustu. Þrátt fyrir mikla möguleika fyrir Norðanmenn á sparnaði bæði í tíma og peningum, stóð eftirspurn eftir þessu flugi ekki undir væntingum. Fyrsta flugið var 28. apríl og það síðasta 1. desember, en á þeim tíma nýttu 5.000 farþegar sér þjónustu Grænlandsflugs á þessari leið.

Eru þetta mikil vonbrigði fyrir hagsmunaaðila, en í upphafi var áformað að bjóða upp á þessar ferðir í eitt og hálft ár. Fremur ólíklegt er að fleiri tilraunir til beins flugs frá Akureyri verði gerðar á næstunni, í ljósi þessarar reynslu Grænlandsflugs, því félagið tapaði um 84 milljónum á uppátækinu.


Tímaritið Flugið hefur sig til flugs á ný

2. tölublað Flugsins

Þriðja tölublaðið af tímaritinu Flugið er væntanlegt um miðjan desember eftir rúmlega tveggja ára dvala. Það mun innihalda fjölbreytt efni sem tengist flugi á einn eða annan hátt, s.s. heilsu, flug og tölvur, fréttir, fólkið í fluginu, veður, málefni líðandi stundar, myndasyrpur, viðskipti og tæknimál í nútíð og framtíð. Blaðið verður 60 eða jafnvel 68 síður að stærð.

Aðstandendur blaðsins, þeir Guðmundur St. Sigurðsson og Þórir Kristinsson, eru bjartsýnir með framhald og gera ráð fyrir um 2 tölublöðum á ári. Vefsvæði tímaritsins, www.flugid.is hefur verið endurbætt og er þar m.a. að finna fréttir og smáauglýsingar. Jafnframt mun Flugið eiga samstarf við Flugheim um fréttaöflun og birtingu greina. Blaðið verður fjármagnað með auglýsingum og einungis selt í áskrift. Áskriftarverð er 690 kr. pr. tölublað ef greitt er með kreditkorti, en annars 790 kr.

Við hvetjum alla flugáhugamenn til að gerast áskrifendur með því að fylla út skráningarform á vef blaðsins, og leggja góðu málefni lið svo útgáfa tímarits um flug í þessum gæðaflokki geti haldið óslitið áfram á næstu árum.


Athyglisverð vefsíða um flug

Vefur Lágflugs

Vefsíðan sem við mælum með í þessu tölublaði Flugfrétta, er vefur flugklúbbsins Lágflugs. www.lagflug.tk. Vefurinn er mjög smekklegur, efnismikill og aðstandendum sínum til sóma. Til hamingju með vefinn og klúbbinn, Lágflugsmenn!


Aðrar flugfréttir

Hér eru nokkrir tenglar á ýmsar aðrar flugfréttir, en það er alltaf nóg um að vera í flugheiminum:

FÍA: Kjarasamningum lokið við flesta viðsemjendur FÍA
FÍA: 12 endurráðnir
FMS: Ein öld liðin frá fyrsta flugi Wright-bræðra (og umfang flugs á Íslandi)
FMS: Eftirlitsstöðvar sem auka nákvæmni og stöðugleika GPS kerfisins
RNF: Tvær skýrslur, vegna TF-KAF og vegna TF-VHH
RNF: Skýrsla vegna flugatviks TF-TOE
LHG: Landhelgisgæslan auglýsir stöðu þyrluflugmanns lausa til umsóknar
LHG: Björgun Þorsteins EA
Lágflug.is: Íslandsflug auglýsir eftir flugmönnum!


Athugið að hægt er að smella á flestar myndanna til að skoða þær í betri upplausn.

Fleira var það ekki að sinni, ágætu lesendur. Ef þið þekkið einhvern sem þið teljið að kunni að meta þetta fréttarit, vinsamlega bendið honum á skráninguna á www.flugheimur.is/flugfrettir og segið honum hvað ykkur finnst um Flugfréttir! Ef margir sýna þessu fréttariti áhuga, er hægt að vanda gerð þess enn meir og gefa það oftar út.

Lumar þú á frétt, heilræði eða fróðleiksmola sem hér á heima? Sendu okkur þá skeyti og að launum færðu þá gleðitilfinningu að hafa lagt eitthvað af mörkum fyrir íslenska flugheiminn!

Bestu kveðjur,

Ingólfur Helgi Tryggvason
ritstjóri og flugdellukarl

hafa nú lesið þetta skeyti skv. www.digits.com vefmælingu.

 

Þú skráðir þig á póstlista Flugheims undir netfanginu jon@jonsson.is
Ef þú vilt skrá þig af listanum, sendu okkur þá skeyti þar um, á: afskra@flugheimur.is

Útgefandi: Hugmót ehf, Skipholti 29, 105 Reykjavík,
sími 562-3740 eða 893-8227, netfang ritstjorn@flugheimur.is eða iht@hugmot.is.