Flugfréttir - 6. tbl. - 16.05.2003

Fjölbreytt flugsumar framundan

Efnisyfirlit:

Flugkomur 2003 í mótun

Nú er loksins komið sumar og flugáhugafólk að vakna af vetrardvala. Flugfréttir hafa líka legið í dvala í rúmlega 5 mánuði, en nú er ætlunin að hrista af sér drungann og skrifa fréttir eins og okkur væri borgað fyrir það!

Um þessar mundir eru við að safna upplýsingum um helstu flugkomur sem haldnar verða sumarið 2003. Umsjónarmenn flugklúbba og aðrir sem koma að dagskrárgerð fyrir hinar ýmsu flugkomur sem haldnar verða í sumar eru beðnir um að senda upplýsingar um viðburðinn á netfangið ritstjorn@flugheimur.is um leið og línur skýrast. Við leggjum mikinn metnað í að hafa þessar upplýsingar sem ferskastar.


Fisflugmenn kenna listir sínar

Svifdrekafélag Reykjavíkur stendur fyrir námskeiði fyrir áhugasama um fisflug nú í maí. Kenndir verða bæði bóklegir og verklegir þættir slíks flugs og er kostnaður um 35.000 kr.

Námskeiðið er fyrir byrjendur og verður kennt á svifdreka og svifvæng (paraglider), en það er eins og stór fallhlíf með góða flugeiginleika. Kennari á námskeiðinu er Herbert Prohl, sem hefur yfir 20 ára reynslu í faginu og hefur kennt fisflug um víða veröld. Hann kenndi hjá félaginu í fyrra og ríkir mikil ánægja með kennslu hans meðal félagsmanna Svifdrekafélagsins.

Nemendur þurfa ekki að mæta með eigin búnað, en geta keypt kennsludreka og vængi í lok námsskeiðsins. Slíkur búnaður kostar nýr um 160.000 kr. Að námskeiði loknu verða nemendur fullfærir um að fljúga sjálfir frá þægilegri flugtaksstöðum t.d. Hafrafelli eða Úlfarsfelli. Lágmarksaldur þátttakenda er 15 ár, eins og í sviffluginu. Í athugun er að bjóða eldri nemendum upp á upprifjun. Áhugasamir hafi samband við Ágúst Guðmundsson (ag@tm.is), en nánari upplýsingar um félagið er að finna á www.fisflug.is.


Samgönguáætlun til 2014 kynnt

Samgönguráðuneytið hefur útbúið greinargóðan kynningarbækling um Samgönguáætlun til 2014. Er bæklingurinn mjög skýr og með myndrænni framsetningu sem er til fyrirmyndar.

Þar kemur fram að til 2006 eru ýmsar framkvæmdir áætlaðar, en mest áberandi er bygging samgöngu- og þjónustumiðstöðvar á Reykjavíkurflugvelli til að þjóna innanlandsflugi og hópferðabifreiðum. Stefnt er að því að flugvöllurinn verði miðstöð innanlandsflugs, sjúkraflugs, einkaflugs og flugkennslu en snertilendingar verði fluttar á flugvelli í nágrenni borgarinnar. Jafnframt þjónar hann hlutverki varaflugvallar fyrir millilandaflug, ásamt Akureyri og Egilsstöðum.

Á landsbyggðinni er áformað að byggja nýjan flugturn á Ísafirði og lengja flugbrautina á Þingeyri. Fyrir sunnlendinga verða aðflugsljós í Vestmannaeyjum endurnýjuð, ásamt stækkun flughlaðs og nýrri flugstöð á Bakkaflugvelli.

Norðlendingar fá líka sinn skerf, því ætlunin er að endurnýja flugbrautarljós og aðflugsbúnað á Akureyri. Einnig verður flugbrautin í Grímsey endurbyggð. Austfirðingar fá aðflugsljós á braut 04 á Egilsstaðaflugvelli. Það er því ljóst að ýmsar breytingar eru í vændum fyrir þá sem stunda flug, hvort heldur í atvinnuskyni eða sem áhugamál.


Bein leið til Köben fyrir Norðlendinga

Boeing 757-200 vél Grænlandsflugs

Grænlandsflug opnaði nýja flugleið 28. apríl, Kaupmannahöfn-Akureyri-Kaupmannahöfn. Þetta beina flug til kóngsins Köben getur sparað Norðlendingum 3 til 6 tíma óþarfa ferðalag til Keflavíkur. Flogið er með Boeing 757-200 þotu félagsins, sem tekur 180 manns í sæti.

Flogið verður tvisvar í viku, á mánudögum og fimmtudögum. Lagt er af stað frá Köben kl. 9:45, lent á Akureyri kl. 10:45, lagt upp frá Akureyri kl. 12:00 og lent í Köben kl. 16:45 (allir tímar eru staðartímar). Stefnt er að því að gjaldskrá verði mjög samkeppnisfær miðað við flug gegnum Keflavík. Sérstakt kynningartilboð verður út maí, kr. 14.900.


Ný flugvél bætist í flota Geirfugls

Ný Socata TB-10 flugvél, SE-LMB, kom til landsins fimmtudagskvöldið 17. apríl. Er hún fjórða Socata-vélin í flugflota Geirfugls, sem auk þess skartar 3 Cessna vélum. Vélin er árgerð 1999, en var fyrst flogið 2001. Henni hefur aðeins verið flogið um 70 tíma frá upphafi og er því nánast ný.

Flugvélin tekur 5 manns í sæti og er vel búin til blindflugs. Af hagkvæmnisástæðum fær hún einkennisstafina TF-LMB, því sænsku einkennisstafirnir voru málaðir mjög haganlega á vélina. TF-BRO, elsta Socata vél klúbbsins verður seld til Svíþjóðar í sumar og er því um endurnýjun á flugflotanum að ræða frekar en stækkun.

Helgi Kristjánsson, Íslandsmeistari í listflugi, og Birkir Örn Arnaldsson flugu vélinni á tveimur dögum frá Alingsas í Svíþjóð. Fyrri daginn flugu þeir til Stavanger í Noregi, en daginn eftir flugu þeir til Hjaltlandseyja, Færeyja og Reykjavíkur. Síðasti leggurinn var 415 sjómílur og voru þeir fjóran og hálfan tíma að fljúga þann hluta ferðarinnar. Flugu þeir sjónflug alla leið og hrepptu gott leiði, því snörp suðaustanátt var ríkjandi þessa daga.


Aðrar flugfréttir

Það er alltaf nóg um að vera í flugheiminum og látum við hér fylgja tengla á helstu flugfréttir á mbl.is og ýmsum öðrum opinberum vefum:

Iceland Express: Góður árangur í apríl - 12.600 farþegar
FMS: Grétar H. Óskarsson verður flugmálastjóri í Kosovo
RNF: Rannsókn RNF á flugslysi TF-FTR í Hvalfirði
Geirfugl: TF-SKN endurbyggð
Atlanta: Samið við Kínverja um viðhald
LHG: Sjúkraflug út á Reykjaneshrygg vegna slasaðs sjómanns ...


Fleira var það ekki að sinni, ágætu lesendur. Ef þið þekkið einhvern sem þið teljið að kunni að meta þetta fréttarit, vinsamlega bendið honum á skráninguna á www.flugheimur.is/flugfrettir/ og segið honum hvað ykkur finnst um Flugfréttir!

Lumar þú á frétt, heilræði eða fróðleiksmola sem hér á heima? Sendu okkur þá skeyti og að launum færðu þá gleðitilfinningu að hafa lagt eitthvað af mörkum fyrir íslenska flugheiminn!

Bestu kveðjur,

Ingólfur Helgi Tryggvason
ritstjóri og flugdellukarl

 

Þú skráðir þig á póstlista Flugheims undir netfanginu jonjonsson@flugheimur.is
Ef þú vilt skrá þig af listanum, sendu okkur þá skeyti þar um, á: afskra@flugheimur.is